top of page

Ísland á aðild að fjölmörgum samstarfsáætlunum Evrópusambandsins í gegnum EES samninginn. Þessar áætlanir bjóða upp á tækifæri til samstarfs á fjölmörgum sviðum og hefur hver sínar áherslur og markmið. Hægt er að sækja um styrki til verkefna sem tengjast m.a. menntun á öllum stigum, menningu og listum, rannsóknum og vísindum, jafnréttismálum, vinnumálum og fyrirtækjasamstarfi.

Horizon 2020 Rannsóknir og nýsköpun

Horizon 2020 rannsókna- og nýsköpunaráætlunin styður við rannsóknir og nýsköpun á öllum fræðasviðum, með það að markmiði að gera Evrópu að fremsta þekkingarsvæði heimsins.

Umsjón á Íslandi: Rannís

Erasmus+ Mennta-, æskulýðs- og íþróttaáætlun ESB

Erasmus+, samstarfsáætlun ESB sameinar undir einn hatt mennta- æskulýðs- og íþróttamál. Rannís rekur landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi.

EPALE - vefgátt í fullorðinsfræðslu

Meginmarkmiðið með Epale er að efla samskipti fagfólks sem sér um fullorðinsfræðslu í Evrópu með það að markmiði að efla gæði formlegrar og óformlegrar menntunar fullorðinna. Rannís rekur landskrifstofu EPALE á Íslandi.

eTwinning – rafrænt skólasasamstarf

 

eTwinning er aðgengilegt skólasamfélag á netinu þar sem hægt er að komast í samband við evrópska kennara og skólafólk, taka þátt í einföldum samstarfsverkefnum og sækja sér endurmenntun ávinnustofum og námskeiðum, svo nokkuð sé nefnt, allt með hjálp upplýsingatækni. Rannís rekur landskrifstofu eTwinning á Ísland.

 

EPSON - Evrópska netverkið fyrir rannsóknir á svæða- eða byggðaþróun og aðlögun

EPSON er ein af svæða- eða byggðatengdu aðgerðaáætlunum Evrópusambandsins, fjármögnuð að 75% hluta af Byggðaþróunarsjóði ESB undir 3. áherslusviði hans, Evrópskt svæðasamstarf, og öllum 27 aðildarlöndum og 4 samstarfslöndum, Sviss, Noregi, Liechtenstein og Íslandi. Byggðastofnun, þróunarsvið er landskrifstofa ESPON á Íslandi.

NORA - Norræna Atlantssamstarfið

NORA eru samtök fjögurra landa og fellur starfsemin undir byggðastefnu Norrænu Ráðherranefndarinnar. Starfssvæði NORA nær til Grænlands, Íslands, Færeyja og strandhéraða Noregs (níu norskra strandfylka frá Finnmörku í norðri til Rogalands í suðri svo og Svalbarða). Byggðastofnun, þróunarsvið er landskrifstofa NORA á Íslandi.

NPA Norðurslóðaáætlun 2014-2020

Meginmarkmið Norðurslóðaáætlunar er að stuðla að bættu atvinnu- og efnahagslífi og að eflingu búsetuþátta með fjölþjóðlegu samstarfi. Áherslur áætlunarinnar eru á nýsköpun, frumkvöðlastarfsemi, endurnýjanlega orkagjafa og orkusparnað, verndun náttúru og menningar og hagkvæma nýtingu auðlinda á norðurslóðum. Byggðastofnun, þróunarsvið er landskrifstofa NPA á Íslandi.

EURES / Evrópsk vinnumiðlun

EURES (EURopean Employment Services) er samstarf um vinnumiðlun milli ríkja á Evrópska Efnahagssvæðinu (EES). Markmiðið er að auðvelda vinnandi fólki að flytjast milli EES-landa.  Vinnumálastofnun er landskrifstofa Eures á Íslandi.

Enterprise Europe Network

Markmið þessa samstarfsnets er að aðstoða lítil og meðalstór fyrirtæki, rannsóknaraðila, opinberar stofnanir og háskóla við að efla samkeppnishæfni sína á alþjóðamarkaði. Evrópumiðstöð Impru á Nýsköpunarmiðstöð Ísland leiðir starfsemina á Íslandi.

 

Heilbrigðisáætlun ESB

Áætluninni er ætlað að auka öryggi sem tengist heilbrigði íbúanna, að efla heilsu og draga úr heilsutengdum ójöfnuði og að útbúa og miðla heilbrigðisþekkingu.

Umsjón á Íslandi: Embætti landlæknis.

Creative Europe

Creative Europe - Kvikmynda og menningaráætlun ESB 2014-2020 er ætlað að styrkja samkeppnishæfni hinna skapandi- og menningarlegu greina og efla menningarlega fjölbreytni. Upplýsingastofa Creative Europe er hjá Rannís.

NORDPLUS

Nordplus, Menntaáætlun norrænu ráðherranefndarinnar,  felur í sér fimm undiráætlanir sem samanlagt ná yfir öll svið menntunar. Markmið áætlunarinnar er að stuðla að samstarfi og gæðum í menntun á Norðurlöndum og Eystrasaltslöndum. Rannís er landskrifstofa Nordplus á Íslandi.

Almannavarnaráætlun ESB

Markmiðið með áætluninni er að fjármagna verkefni sem miða að því að vernda fólk, eignir, umhverfi og menningarminjar gegn náttúruvá eða váverkum af mannavöldum.

Umsjón á Íslandi: Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra

Europass

Europass er safnheiti yfir staðlaða menntunar- og starfshæfnimöppu. Meginmarkmiðið með Europass er að auðvelda gegnsæi menntunar og starfsreynslu, bæði heima og að heiman. Europass er einnig ætlað að auðvelda samhæfingu prófskírteina og viðurkenninga. Rannís rekur landskrifstofu Europass á Íslandi.

Euroguidance - Evrópumiðstöð náms- og starfsráðgjafar

Evrópumiðstöð náms- og starfsráðgjafar hefur þann megintilgang að miðla evrópskri vídd í náms- og starfsráðgjöf og undirstrika mikilvægi hennar. Rannís rekur landskrifstofu Euroguidance á Íslandi.

Evrópumerkið/European Language Lable

Menntamálaráðuneytið og Rannís veita viðurkenningu fyrir nýbreytniverkefni á sviði tungumálanáms og kennslu. Tilbúin tungumálaverkefni geta sóst eftir Evrópumerkinu sem er gæðastimpill á verkefnið. Rannís rekur landskrifstofu ELL á Íslandi.

Refernet - Evrópumiðstöð fyrir þróun starfsmenntunar

ReferNet er samstarfsnet sem hefur það markmið að auka upplýsingasöfnun og miðlun upplýsinga um starfsmenntun í Evrópu. Menntamálastofnun rekur landskrifstofu ReferNet á Íslandi.

Uppbyggingarsjóður EES

Uppbyggingarsjóður EES er fjármagnaður af Íslandi, Liechtenstein og Noregi með því markmiði að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins og efla tvíhliða samstarf milli EFTA ríkjanna innan EES og fimmtán viðtökuríkja sjóðsins í Evrópu. Umsjón með þátttöku Íslands hefur utanríkisráðuneytið.

Please reload

bottom of page