top of page

Verkefni sem kynnt voru á uppskeruhátíð

Hér fyrir neðan eru upplýsingar um þau verkefni sem verða með kynningar á uppskeruhátíð Evrópuáætlanna í Hafnarhúsinu 22. nóvember 2017. Verkefnunum er skipt niður eftir málaflokkum.

 

 

7. rannsóknaráætlun ESB: Rannsóknir

 

Íslensk erfðagreining: NEWMEDS

Heiti verkefnis: Nýjar aðferðir til þess að finna lyf við þunglyndi og geðklofa
Samstarfslönd: Ísland, Bretland, Svíþjóð, Danmörk, Þýskaland o.fl.

Verkefnið er eitt samstarfsverkefna Evrópusambandsins sem leitast við að efla samstarf háskólafólks og vísindamanna innan veggja lyfjafyrirtækja. Mörgum fyrirtækjum hafa fallist hendur við þróun betri geðlyfja. Í NEWMEDS vinna stóru lyfjafyrirtækin saman að því að auka þekkingu á orsökum geðsjúkdóma í þeirri von að aukin þekking gagnist við lyfjaþróun. Áhrif erfðabreytileika á byggingu og virkni heilans hafa verið könnuð, m.a. með myndgreiningu og taugasálfræðiprófum. Niðurstöður leiddu í ljós að erfðabreytileikar sem auka líkur á geðsjúkdómum hafa áhrif á byggingu og virkni heilans, ekki aðeins í sjúklingum heldur einnig í heilbrigðum einstaklingum sem þá bera. Þessir erfðabreytileikar hafa sem sagt áhrif á það á það hvernig menn hugsa. Niðurstöður þessarar rannsóknar sem leidd var af Íslenskri Erfðagreiningu hafa verið samþykktar til birtingar í tímaritinu Nature. Tengsl erfðabreytileika og lyfjasvörunar , þ.e. svörun við lyfjum sem þegar eru á markaði, eru enn fremur rannsökuð í NEWMEDS. Niðurstöður þeirrar rannsóknar gætu stytt þann tíma sem það tekur að finna lyf sem gagnast hverjum og einum best.

 

Íslensk erfðagreining: ProMark

Heiti verkefnis: Breytingar í erfðamenginu sem hafa áhrif á feril blöðruhálskrabbameins
Samstarfslönd: Ísland, Holland, England, Rúmenía

Krabbamein í blöðruhálskirtli er algengasta krabbamein í körlum í hinum vestræna heimi en aðeins um 20% krabbameinanna þróast í alvarlegan sjúkdóm sem þarfnast meðhöndlunar. Í dag eru ekki til öruggar aðferðir til að spá fyrir um hvernig blöðruhálskirtilskrabbamein á byrjunarstigi muni þróast. Þetta leiðir aftur til þess að fjöldi karlmanna, sem ekki mun fá alvarlegan sjúkdóm, er meðhöndlaður að óþarfa með skurðaðgerð sem getur minnkað lífsgæði viðkomandi. Meginmarkmið ProMark var að finna erfðaþætti sem geta spáð fyrir um þróun blöðruhálskirtilskrabbameins. Erfðaefni og nákvæmum upplýsingum um framvindu sjúkdómsins var safnað frá 5,500 sjúklingum og 7,000 viðmiðum frá 4 löndum. Sýnin voru arfgerðagreind og leitað að arfbreytileikum sem tengjast tilurð og þróun sjúkdómsins, sem og magni prostate specific antigen (PSA) í blóði. Í stuttu máli þá fundust alls 12 arfbreytileikar og greiningarlíkan var þróað sem skilur betur á milli mismunandi sjúklinahópa en fyrri greiningarðaferðir. Þá voru gerðar líffræðilegar rannsóknir á einum arfbreytileika sem tengist áhættu á blöðruhálskirtilskrabbameini. Niðurstöður voru birtar í 8 greinum í alþjóðlegum tímaritum (m.a. 3 greinar í Nature genetics og ein grein í Science translational medicine).

 

Íslensk erfðagreining: GEFOS

Heiti verkefnis: Erfðaþættir sem áhrif hafa á beinþynningu
Samstarfslönd: Ísland, Holland, Bretland, Svíþjóð, Grikkland, Bandaríkin, Ástralía

Markmið Gefos verkefnisins var að einangra þá breytileika í erfðaefninu sem áhrif hafa á beinþynningu og beinþynningartengda þætti. Beinþynning er algengur sjúkdómur þar sem erfðir spila stóran þátt en þeir erfðavísar sem komu við sögu í tilurð og þróun sjúkdómsins voru illa skilgreind. Í GEFOS verkefninu voru leiddir saman þeir hópar sem voru sterkastir í rannsóknum á erfðafræði beinþynningar í heiminum. Sú nálgun var farin var að beita þéttu neti erfðabreytileika til að finna þau svæði í erfðaefninu sem skifta máli fyrir sjúkdóminn og fann hópurinn um 60 mikilvæga erfðabreytileika sem hafa áhrif á framgang sjúkdómssins. Þessar niðursöður voru birtar í virtustu tímaritum á þessu sviði, Nature Genetics og Nature. Að GEFOS verkefninu komu upphaflega 11 fyrirtæki, stofnanir og háskólar frá 7 löndum. Þessum styrk er nú lokið en í dag taka 57 hópar enn þátt í þessu samvinnuverkefni.

 

DREAM

Heiti verkefnis: Disbility rights expanding accessable markerts
Samstarfslönd: Írland, Holland, Bretland, Noregur, Ísland.

DREAM verkefnið felur í sér þjálfun 14 ungra vísindamanna (doktorsnema) sem allir vinna mismunandi þætti stórrar rannsóknaráætlunar DREAM verkefnisins sem beinist að rannsóknum á innleiðingu og framkvæmd á nýjum mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (UN Convention on the Rights of Persons with Disabilities) sem tók gildi árið 2008. Markmið verkefnisins er að þjálfa næstu kynslóð fræðimanna og frumkvöðla á sviði fötlunarannsókna, stefnumótunar og nýjunga í málefnum fatlaðs fólks. Verkefnið hlaut Marie Curie styrk úr 7. rammaáætlun Evrópusambandsins til þátttöku í þjálfunarneti fyrir ungt vísindafólk (ITN – Initial Traning Network) undir Mannauðsstoð (e. people) áætlunarinnar, sem miðar að því að auka alþjóðlegan hreyfanleika vísindamanna, með því markmiði að styrkja evrópska forystu á lykilsviðum vísinda og tækni.

 

Futurevolc

Heiti verkefnis: European volcanological supersite in Iceland: a monitoring system and network for the future
Samstarfslönd: Írland, Ítalía, Bretland, Holland, Svíþjóð, Þýskaland, Noregur, Sviss og Frakkland.

Rannsóknarverkefnið Futurevolc eða Ofurstöð í eldfjallafræðum hefur það að megin markmiði að koma á fót samhæfðu vöktunarkerfi á eldfjöllum, að þróa nýjar leiðir og aðferðir við að meta hættuna af einstökum viðburðum, að efla skilning vísindasamfélagsins á kvikuferlum í jarðskorpunni og að bæta upplýsingagjöf til almannavarna og yfirvalda. Nýjar tegundir mælitækja hafa verið settar upp til þess að ná þessu markmiði m.a. til að nema hreyfingar jarðskorpunnar, jarðgös, rafsvið og hljóðbylgjur. Verkefnið er leitt í af Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands.

Vefsíða: www.futurevolc.hi.is / Facebook: https://www.facebook.com/futurevolc.

 

 

Amylomics

Samstarfslönd: Ísland, Króatía, Holland, Þýskaland, Svíþjóð, Frakkland, Bretland

Verkefnið mun hagnýta fjölbreytt lífríki jarðhitasvæða á Íslandi við að þróa hitaþolin ensím til notkunar í sterkju- og sykruiðnaði. Hita- og sýruþol eru nauðsynlegir eiginleikar í slíkum iðnaðarferlum en þá má finna í ensímum lífvera á hverasvæðum. Meðal þátttakenda í AMYLOMICS er franska fyrirtækið Roquette Frères, sem er eitt hið stærsta í Evrópu í framleiðslu sterkju og afleiddra afurða, með ársveltu upp á um 7 milljarða evra. Roquette Frères mun geta nýtt ensím, sem þróuð verða í verkefninu til endurbóta á ferlum og nýsköpunar í framleiðslu sinni. Hluti ensímanna verður markaðssettur af sprotafyrirtækinu Prokazyme til notkunar í margvíslegum sykruiðnaði.

 

 

Ecofishman

Samstarfslönd: Írland, Holland, Bretland, Noregur, Ísland.

Með EcoFishMan verkefninu er stefnt að því að þróa nýja aðferðafræði sem nýtist við breytingar og umbætur á fiskveiðistjórnunarkerfi Evrópusambandsins. Lögð er áhersla á samstarf við sjómenn, útgerð og vinnslu og að hagnýta upplýsingar úr rafrænum afladagbókum. Markmið verkefnisins er að stuðla að vistvænni, sjálfbærri og hagrænni stjórnun með sérstakri áherslu á rekjanleika og að lágmarka brottkast afla. Að EcoFishMan verkefninu koma alls 13 stofnanir, fyrirtæki og háskólar í átta Evrópulöndum, þar á meðal Háskóli Íslands og háskólinn í Tromsö í Noregi.

 

GEISER

Heiti verkefnis: Geothermal Engineering Integrating Mitigation of Induced Seismicity in Reservoirs
Samstarfslönd: Ísland, Þýskaland, Frakkland, Holland, Sviss, Noregur, Ítalía, Bretland.

Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) hefur verið þáttakandi í fjölþjóðlega verkefninu GEISER (Geothermal Engineering Integrating Mitigation of Induced Seismicity in Reservoirs). Verkefnið miðar að því að milda áhrif jarðskjálfta sem fylgja örvun jarðhitakerfa og öðlast betri skilning á eðli manngerðra skjálfta (induced seismicity) í jarðhitakerfum. Verkefnið miðar að því að þróa aðferðir til að draga úr hættu vegna manngerðra skjálfta og semja leiðbeiningar fyrir stjórnvöld varðandi leyfisveitingar til orkuframleiðslu. Gögnum sem aflað er við séríslenskar aðstæður svarað ýmsum spurningum um eðli manngerðra skjálfta komið öðrum til góða.

 

System_US

Heiti verkefnis: Systems Biology of Human Metabolism

Kerfislíffræði, eða systems biology, er nýtt og hratt vaxandi fræðasvið sem felur í sér kerfisbundnar rannsóknir á flóknum líffræðilegum ferlum, oftast með því að tengja saman ólíkar upplýsingar með notkun stærðfræðilíkana. Hegðun lífveranna við ýmis skilyrði er síðan hægt að herma í tölvu. Þetta verkefni snýst um að nýta þau sóknarfæri sem hið nýja fræðasvið kerfislíffræði skapar. Unnið er að þróun og endurbótum á líkönum af efnaskiptaferlum mannafruma sem síðan eru notuð til rannsókna á eiginleikum þeirra. Í náinni framtíð verður vonandi hægt að nýta líkönin til að ákvarða áhrif lyfja á einstaklinga – sem er liður í einstaklingsmiðaðri læknismeðferð.

 

 

Rannís

Heiti verkefnis: Vísindavaka
Samstarfslönd: Öll lönd Evrópu taka þátt

Vísindavaka Rannís er haldin síðasta föstudag í september, en hún er haldin samtímis í meira en 300 borgum og bæjum Evrópu undir heitingu Researchers’ Night. Markmiðið með Vísindavökunni er að færa vísindin nær almenningi, kynna fólkið á bak við vísindin og vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í nútímasamfélagi. Á Vísindavöku er vísindafólkið í forgrunni og almenningi boðið til stefnumóts við vísindamenn. Ýmiss konar rannsóknir og verkefni eru kynnt með lifandi kynningum þar sem allir geta tekið þátt og boðið upp á skemmtilega og fræðandi viðburði fyrir alla fjölskylduna. Allar vísindagreinar eru kynntar á Vísindavöku, hugvísindi jafnt sem raunvísindi.

 

 

Safer Internet Programme: Netöryggi

 

SAFT

Heiti verkefnis: SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni
Samstarfslönd: Austurríki, Belgía, Bretland, Búlgaría, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ísland, Ítalía, Kýpur, Lettland, Litháen, Lúxemborg, Malta, Noregur, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Rússland, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Tékkland, Ungverjaland, Þýskaland.

SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni, er vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi. Verkefnið er hluti af Safer Internet Programme, aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun og er styrkt af framkvæmdastjórn ESB. Samningsaðili við ESB er Heimili og skóli – landssamtök foreldra, sem sér um að annast útfærslu og framkvæmd verkefnisins í formlegu samstarfi við Rauða krossinn, Ríkislögreglustjóra og Barnaheill – Save the Children Iceland.
SAFT er í samstarfi við önnur lönd í Evrópu og deilir með þeim upplýsingum, aðferðafræði og þekkingu. Markmiðið er að til verði sameiginlegur evrópskur sjóður þekkingar og aðferðafræði á þessu sviði sem styður hið jákvæða og spornar gegn neikvæðum hliðum upplýsingatækninnar.

 

 

MEDIA og Menningaráætlun ESB: Kvikmyndir og menning

 

Media upplýsingaþjónusta á Íslandi

Tegund verkefnis: Media

MEDIA áætlunin er kvikmynda, sjónvarps- og margmiðlunaráætlun ESB og hefur hún stutt þróun og dreifingu þúsunda evrópskra kvikmynda . Jafnframt hafa ýmis námskeið, kvikmyndahátíðir, kynningar og fjármögnunarmessur í Evrópu fengið stuðning sem hefur stuðlað að aukinni samvinnu milli framleiðenda í álfunni. Á árinu 2011 bættist við MEDIA MUNDUS áætlunin til að styðja markaðssetningu evrópskra kvikmynda á alþjóðamarkaðinum.

Frá því að Íslendingar gerðust aðilar að MEDIA áætluninni hafa um 40 íslensk framleiðslufyrirtæki fengið lán og/eða styrki til undirbúnings á um fimmtíu íslenskum kvikmyndum, heimildarmyndum og tölvuleikjum. Þá hafa níu íslensk fyrirtæki fengið lán og/eða styrki til dreifingar á evrópskum kvikmyndum á Íslandi. Erlendir dreifendur hafa fengið lán og/eða styrki til að sýna 15 íslenskar kvikmyndir í allt að þrettán Evrópulöndum og tólf sjónvarpsverkefni hafa fengið styrki til dreifingar til evrópskra sjónvarpsstöðva. Frá því Íslendingar gerðust aðilar að MEDIA áætluninni árið 1992 hefur íslenskum fyrirtækjum verið úthlutað um einum milljarði íslenskra króna og um hálfum milljarði króna hefur verið veitt til að styrkja dreifingu á íslenskum kvikmyndum til Evrópu.

 

Menningáráætlun Evrópusambandsins á Íslandi

Heiti verkefni: The Rediscovery of a European Cultural Heritage for the 21st century
Tegund verkefnis: Styttra samstarfsverkefni
Samstarfslönd: Austurríki, Þýskaland

Menningaráætlun Evrópusambandsins veitir styrki til verkefna í öllum listgreinum og á sviði menningararfleifðar auk þess að styrkja starfsemi evrópskra tengslaneta og menningarstofnana. Áætluninni er ekki skipt milli menningarsviða. Samstarfsverkefni geta verið innan einnar listgreinar eða menningarsviðs, s.s. leiklistar, tónlistar, myndlistar, menningararfs o.s.frv. eða verið þverfagleg í samstarfi ólíkra greina. Meginmarkmið áætlunarinnar er að efla menningarlega samkennd Evrópubúa.

Meðal íslenskra aðila sem hafa hlotið styrk úr Menningaráætlun ESB eru: Sagenhaftes Island var aðalskipuleggjandi í verkefni sem ber heitið “The Rediscovery of a European Cultural Heritage for the 21st. century”. Meðskipuleggjendur voru tveir, Literaturhaus í Þýskalandi og Literturhaus í Austurríki. Styrkurinn var 200 þúsund evrur. Þetta var hluti af stærra verkefni sem nefndist Sögueyjan Ísland, en Ísland var heiðursgestur á Bókasýningunni í Frankfurt 2011. Af því tilefni voru Íslendingasögurnar gefnar út í nýrri, þýskri þýðingu í fimm bindum. Styrkurinn frá Menningaráætlun Evrópusambandsins var nýttur til margvíslegra kynninga, viðburða, upplestra og fyrirlestra tengda hinum nýju útgáfum.

 

Progress: Jafnréttismál

 

Bann við mismunun

Tegund verkefnis: Progress

Mannréttindaskrifstofa Íslands verður með kynningu á verkefnum stofnunarinnar sem tengjast mismunun. Þar á meðal er útvarpsauglýsingaherferð gegn mismunun og árlegar aðgerðir í tilefni Evrópuviku gegn rasisma. Jafnframt munu liggja frammi til kynningar þau rit sem skrifstofan hefur gefið út á undanförnum árum. Þau eru t.d. Bann við mismunun, Um réttindi transfólks, Mannréttindi í þrengingum, Kvennasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna o.fl.

 

 

EEN: Viðskipta-, tækni- og þekkingaryfirfærsla

 

Enterprise Europe Network

Samstarfslönd: Austurríki, Armenía, Belgía, Búlgaría, Chíle, Króatía, Kýpur, Tékkland, Danmörk, Egyptaland, Eistland, Finland, Frakkland, Þýskaland, Grikkland, Ungverjaland, Ísland, Írland, Ísrael, Ítalía, Lettland, Litháen, Lúxembúrg, Malta, Holland, Noregur, Pólland, Portúga, Rúmenía, Rússland, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Sviss, Tyrkland, Bretland, Bandaríkin, Makedónía.

Enterprise Europe Network aðstoðar lítil og meðalstór fyrirtæki, rannsóknaraðila, opinberar stofnanir og háskóla við að komast á markað í Evrópu og efla þannig samkeppnishæfni sína á alþjóðamarkaði. Aðstoðin felst í ráðgjöf um viðskipti í Evrópu, um tækifæri innan styrkjakerfis ESB og um möguleika á yfirfærslu þekkingar og tækni til og frá Íslandi.

„Locatify á Íslandi þakkar þá góðu þjónustu sem Enterprise Europe Network hefur veitt okkur. Við höfum náð góðum samstarfsaðilum í Evrópu sem stefna að sömu markmiðum og við.” Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir

Starfsmenn Enterprise Europe Network á Íslandi hafa verið mjög liprir og úrræðagóðir við úrvinnslu fyrirspurna, sem í okkar tilfelli hafa verið framar ollum vonum” Ásbjörn Torfason-Vistvæn Orka.

 

 

Comenius og eTwinning: Leik- grunn- og framhaldsskólar

 

Leikskólinn Arnarsmári

Heiti verkefnis: Heilbrigð sál í heilbrigðum líkama
Tegund verkefnis: Comenius skólasamstarfsverkefni
Samstarfslönd: Belgía, Svíþjóð, Tyrkland, Ítalía, Pólland

Með verkefninu „Heilbrigð sál í heilbrigðum líkama“ var markmiðið að börnin yrðu meðvituð um mikilvægi heilbrigðs lífernis. Skipst var á heilsukössum sem höfðu að geyma alls kyns dæmi og hugmyndir til að ýta undir heilbrigðan lífstíl, eins og úti- og innileiki, söngva, uppskriftir og annað námsefni sem kennarar og nemendur gátu nýtt sér. Með því að sjá til þess að börnin borði hollan mat og hreyfi sig meira en áður og kenna þeim að iðka dyggðir og huga að umhverfi og náttúru er von til þess að börnin verði betur meðvituð um mikilvægi þess að huga vel að líkama og sál.

 

Flataskóli

Heiti verkefnis: Sköpunarkrafturinn – Listin að lesa
Tegund verkefnis: Comenius skólasamstarfsverkefni
Samstarfslönd: Belgía, Svíþjóð, Tyrkland, Ítalía, Pólland

Verkefninu var ætlað að auka áhuga nemenda á læsi og lestri þar sem lestraráhugi nemenda hefur minnkað á undanförnum árum. Skólasafnið stóð fyrir lestrarátaki í 3. til 7. bekk. Elstu nemendur tóku þátt í lestrarmaraþoni og gistu á bókasafninu. Farið var í ratleik sem byggði á vísbendingum úr bókum. Rithöfundar komu í heimsókn og kynntu bækur sínar. Lestrarveggjum var komið fyrir í skólanum þar sem nemendur settu umsagnir um bækur og gáfu þeim einkunnir. Bókaklúbbar voru stofnaðir með bókum sem afi og amma og foreldrar nemenda lásu sjálf sem börn. Nemendur lásu og sögðu frá efni bókanna og frásögnin var tekin upp á myndband. Eldri nemendur lásu fyrir yngri nemendur. Nemendur skiptust á bréfum og kynntust þannig menningu og siðum þátttökulandanna. Þeir sömdu líka sögu þar sem sögupersónan ferðaðist til þátttökulandanna og lenti í ævintýrum. Sagan var gefin út í bókarformi á ensku á Ítalíu.

 

Fjölbrautaskóli Norðurlands-Vestra/Málmiðn

Heiti verkefnis: EXCITED
Tegund verkefnis: Comenius skólasamstarfsverkefni
Samstarfslönd: Belgía, Tékkland, Þýskaland, Danmörk og Noregur

Verkefnið snerist um hönnun í málmiðnaðardeildum á fjölnota forritanlegri framleiðslulínu til að setja saman lyklakippur. Markmiðið var að auglýsa skóla á ferð „mobile school“ sem fer um fátækrahverfi í þróunarlöndum. Framleiðslueiningarnar geta staðið einar þ.e. unnið sjálfstætt en samt í samhengi hver við aðra. Hver skóli í hverju landi var ábyrgur fyrir sínum hluta sem samanstendur af vélbúnaði, stýrieiningum og móðurtölvu. Til að verkefnið gengi upp þurftu nemendur og kennarar að hafa samskipti sem einkenndust af mikilli nákvæmni, samvinnu, hugmyndavinnu og lausnum. Vefsíða verkefnisins: www.comenius-excited.eu

 

Leikskólinn Krílakot

Heiti verkefnis: Ólíkar hefðir – saman í frí
Tegund verkefnis: Comenius skólasamstarfsverkefni
Samstarfslönd: Búlgaría, Rúmenía, Pólland og Tyrkland

Verkefnið „Ólíkar hefðir – saman í frí“, kynnti aðrar Evrópuþjóðir fyrir nemendum, foreldrum og samstarfsfólki Sögulegur menningararfur og menning ólíkra landa var viðfangsefnið en á sama tíma var okkar eigin menningarlegu einkennum haldið á lofti og kynntar fyrir samstarfsskólum. Vinnu barnanna var safnað í albúm, bæklinga, geisladiska og settar voru upp sýningar. Þá var unnið með bækur, teikningar, dans og tónlist frá hverju landi. Lærdómurinn af samstarfi sem þessu er aukið umburðarlyndi og minni fordómar t.d. í foreldrastarfi, sem er mikilvægt í daglegu starfi leikskóla. Þátttaka í þessu verkefni hefur skilað aukinni menningarlegri þekkingu meðal kennara. Það er mjög þýðingarmikið fyrir leikskólann, þar sem margir nemendur eru af erlendum uppruna

 

Vatnsendaskóli

Heiti verkefnis: Virðing – Respect; Think Globally – Act Locally
Tegund verkefnis: Comenius skólasamstarfsverkefni
Samstarfslönd: Bretland, Þýskaland, Írland, Tyrkland

Verkefnið byggði á mikilvægi þess að bera virðingu fyrir okkar nánasta umhverfi og hvernig það hefur bein áhrif á umheiminn. Fyrra árið í verkefninu unnu nemendur að því að þroska með sér skilning á hvað það er að vera þátttakandi í samfélagi; allir hafa áhrif á umheiminn og virðing er undirstaða allra samskipta. Virðing fyrir sjálfum sér er mjög mikilvæg sem og virðing fyrir fjölskyldu, vinum og skólafélögum. Virðingarhugtakið var víkkað út seinna árið og sjónum beint að mikilvægi þess að bera virðingu fyrir náttúrunni og þar með umheiminum. Verkefnið studdist við myndlist, tölvutækni, leikræna tjáningu, lífsleikni sem og vinnu með önnur tungumál en tengdist ávallt skólanámskrám skólanna. Nemendur unnu að því að skilja að allar gjörðir okkar hafa áhrif á náttúruna og samfélagið.

 

Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða í Reykjavík

Heiti verkefnis: SPICE
Tegund verkefnis: Comenius Regio samstarfsverkefni
Samstarfsland: Spánn

Markmiðið með SPICE verkefninu er að auka fjölmenningarfærni í skólasamfélaginu og öðrum stofnunum, meta stöðu nemenda með íslensku sem annað tungumál í lestri og stærðfræði á móðurmáli þeirra. Koma að símenntun kennara á fjölmargan hátt og auðvelda öllum sem tilheyra íslensku samfélagi aðgang að því. Íslensku samstarfsaðilarnir unnu mörg hagnýt verkefni: Foreldrakynning á Fjölmenningarskóla Tækniskólans á fimm tungumálum, menningarmót sem orðið er fastur þáttur í starfsemi sumra skólanna sem tóku þátt í SPICE, verkefni sem tengist tungumálanámi og tungumálakennslu, myndbönd nemenda, námskeið fyrir kennara í PALS lestri og gerð kynningarmyndbanda á níu tungumálum um starfsemi og þjónustu Borgarbókasafnsins. Samstarfsaðilar verkefnisins á Íslandi eru Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða, Austurbæjarskóli, Háteigsskóli, Kampur, Borgarbókasafnið og Tækniskólinn. Heimasíða verkefnis: http://comeniusregiospice.wordpress.com/

 

Leikskólinn Holt

Heiti verkefnis: Talking Pictures
Tegund verkefnis: eTwinning verkefni 2012-2013
Samstarfsland: Ísland, Pólland og Spánn

Hver skóli sendi myndir tengdar ákveðnum viðfangsefnum. Myndirnar voru upphafspunktur í vinnu með nánasta umhverfi og menningu. Börnin fengu jafnframt tækifæri til að kynnast menningu hinna landanna. Viðfangsefnin voru jólin, byggingar, skilti og merkingar, arfleifð, dýr og náttúra. Börnin unnu með viðfangsefnin á fjölbreyttan hátt og nýttu sér m.a. til þess upplýsingatækni. Verkefnið hafði mikla þýðingu fyrir bæði kennara og börn. Augu kennara voru opnuð fyrir möguleikum upplýsingatækninnar ásamt því að þeir lærðu hver af öðrum og kynntust aðstæðum kollega sinna. Börnin lærðu mikið af því að vera í samstarfi við börn í evrópskum skólum. Verkefnið hafði t.d. þýðingu fyrir börn af erlendum uppruna sem veittu þeim tækifæri til kynna menningu og land sitt á einstakan hátt. Upplýsingasíða um verkefnið

 

Borgarholtsskóli

Heiti verkefnis: QED-online
Tegund verkefnis: eTwinning verkefni og Comenius skólasamstarf 2011-2013
Samstarfsland: Ísland, Þýskaland, Rúmenía, Pólland, Grikkland, Frakkland og Tyrkland

Verkefnið gekk út á að meta fjölbreytileika í stærðfræðinámi og kennslu hjá þátttökulöndunum þar sem fjölbreytileiki og þverfagleg nálgun var höfð að leiðarljósi. Verkefnið byggðist á félagslegri nýsköpun þar sem nemendur og kennarar byggðu brýr milli landa og greina til að mynda með því að skiptast á verkefnum, hugmyndum og myndböndum þvert á lönd og menningarhópa. Meginávinningur verkefnisins voru öflug félagsleg tengsl við önnur lönd. Einnig hefur skilningur á eigin menntakerfi og menntakerfum annarra landa aukist og leitt til víðsýni, aukinnar fagmennsku og skilning á kostum og göllum ólíkra kerfa. Þessi samskiptavettvangur hefur einnig dregið úr fordómum og neikvæðum staðalímyndum. Upplýsingasíða um verkefnið

 

 

Leonardo: Starfsmenntun

 

Listaháskóli Íslands

Heiti verkefnis: Starfsþjálfun fyrir nýútskrifaða nemendur
Listaháskólans
Tegund verkefnis og ár: Leonardo mannaskiptaverkefni; fólk á
vinnumarkaði, 2010
Samstarfslönd: Danmörk, Noregur, Finnland, Holland

Í þessu verkefni fengu fimm nýútskrifaðir nemendur Listaháskóla Íslands tækifæri til að fara í starfsþjálfun til Evrópu. Þeir dvöldu í Danmörku, Noregi, Finnlandi og Hollandi í 7 – 16 vikur. Þátttakendur komu af mismunandi fagsviðum skólans, þ.e. grafískri hönnun, tónlist, leiklist og myndlist og störfuðu hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum hver á sínu fagsviði. Störfin voru ólík en allir þátttakendur fengust við spennandi verkefni og fengu töluverða ábyrgð þannig að reynslan var dýrmæt og gott veganesti út á vinnumarkaðinn.

 

Fjölbrautaskóli Suðurnesja

Heiti verkefnis: Verklegt nám fyrir nemendur á starfsbrautum
Tegund verkefnis: Leonardo mannaskiptaverkefni
Samstarfslönd: Finnland

Þetta er mjög skemmtilegt verkefni þar sem sex nemendur af starfsbraut Fjölbrautaskóla Suðurnesja fengu tækifæri til að fara til Finnlands og taka þátt í skólastarfi í tvær vikur. Val þátttakenda var faglegt og undirbúningur fyrir ferðina mikilvægur hluti af náminu. Nemendur fengu góðan stuðning og nýttu dvölina mjög vel. Í Finnlandi tók hópurinn þátt í hefðbundnu skólastarfi, raunverulegri starfsþjálfun og vettvangsferðum. Nemendurnir völdu sér fagsvið áður en farið var í ferðina og var útbúin sérstök dagskrá fyrir hvern þeirra. Fagsviðin voru matreiðsla, margvísleg viðhaldsvinna, viðskipti og stjórnun, umönnun og viðskiptafög.

 

Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða

Heiti verkefnis: Miðlum jafnt á milli – Námsferð fagaðila á sviði þjónustu og upplýsingamiðlunar til innflytjenda
Tegund verkefnis og ár: Leonardo mannaskiptaverkefni, fagaðilar í starfsmenntun 2010
Samstarfslönd: Portúgal

Tilgangur verkefnisins var að fræðast um aðferðir og skipulag upplýsinga- og stuðningsþjónustu við innflytjendur annars staðar í Evrópu. Portúgal varð fyrir valinu því þar hefur svokölluð „One Stop Shop“ fengið evrópska viðurkenningu sem fyrirmyndarverkefni á þessu sviði. Þátttakendur í verkefninu komu frá sex stofnunum, samtökum og fyrirtækjum sem vinna að málefnum innflytjenda á Íslandi sem eru raunverulegur markhópur verkefnisins. Dreifing niðurstaðna var tryggð í fjölbreyttum hópi þátttakenda sem allir kynntu verkefnið hjá sínum stofnunum og hafa í framhaldinu unnið áfram saman að skipulagi þjónustunnar á Íslandi.

 

Skrúðgarðyrkjumeistara

Heiti verkefnis: Norræn/evrópsk samvinna skrúðgarðyrkjumeistara og menntastofnana um þróun
kennsluefnis, -aðferða, námskrár og færniviðmiða í skrúðgarðyrkju
Tegund verkefnis og ár: Leonardo samstarfsverkefni, 2010
Samstarfslönd: Danmörk og Finnland

Verkefnishugmyndin byggist á að nýta reynslu og þekkingu sem samtök skrúðgarðyrkjumeistara á Norðurlöndum hafa á sínu fagsviði til að bera saman námsefni og námskrár kennslustofnana í skrúðgarðyrkju á Norðurlöndunum og öðrum Evrópulöndum. Traust tenging var til staðar við kennslustofnanir í Danmörku, Finnlandi og á Íslandi og
þátttakendur verkefnisins voru fulltrúar atvinnulífs og skóla. Verkefnahópurinn náði mjög góðum árangri og þróaði námsskrá í skrúðgarðyrkju sem byggir á nýrri aðferðafræði EQF/NQF. Námsskráin tekur mið af nýjum áskorunum m.a. tengdum loftslagsbreytingum og sjálfbærri þróun. Annar afrakstur verkefnisins er námskrá fyrir starfsnám í umhirðu- og steinlagnatækni.

 

Landbúnaðarháskóli Íslands

Heiti verkefnis: SheepSkills – Ný þekking í hefðbundinni atvinnugrein
Tegund verkefnis og ár: Leonardo yfirfærsluverkefni, 2009
Samstarfslönd: Danmörk, Þýskaland, Ungverjaland og Tyrkland

SheepSkills verkefnið skilaði umtalsverðum árangri í að auka menntun fólks í sauðfjárrækt. Íslenska kennsluefnið, 13 kaflar um öll helstu atriði sauðfjárræktar, er notað sem kennsluefni í bændadeild LbhÍ (á framhaldsskólastigi), í háskólakennslunni og líka á endurmenntunarnámskeiðum LbhÍ um allt land. Heimasíða verkefnisins, www.sheepskills.eu er notuð til að miðla efni sem notað er á námskeiðum og vinnusmiðjum í mörgum löndum. Tengslanetið sem til varð í verkefninu er sterkt, bæði milli þátttökulandanna (Ísland, Danmörk, Tyrkland, Ungverjaland og Þýskaland), milli þeirra og „nýrra“ landa (Ungverjar hafa t.d. unnið með Rúmenum og kynnt þeim verkefnið. Íslendingar með Norðmönnum, Englendingum ofl.) og innan landa (sauðfjárbændur koma saman/ mikilvægt bæði faglega og félagslega).

 

 

Grundtvig: Fullorðinsfræðsla

 

Senior Eco Action

Tegund verkefnis: Grundtvig Senior Volunteering
Samstarfsland: Ítalía

VVerkefni snerist um skipti á 8 sjálfboðaliðum 50 ára og eldri í verkefninu í skemmri tíma. Markmið verkefnis var að ýta undir umhverfisvæna þekkingu og sjálfbæran lífsstíl. Komið á langtíma samskiptum þessara tveggja stofnana. Samfélög gistilanda njóta góðs af þekkingu og reynslu sjálfboðaliða sem ýtir undir samspil og samvinnu kynslóða.

 

Compass

Tegund verkefnis: Grundtvig samstarfsverkefni
Samstarfslönd: Finnland, Belgía, Þýskaland

Markmið verkefnisins var að vinna með innflytjendum og finna leiðir til ryðja burtu hindrunum og að jafna möguleika þeirra í nýju samfélagi. Miðlun þekkingar á málefnum innflytjenda í þáttökulöndum og áhrif á stefnur, lög og reglugerðir er varða málefni þeirra. Komið á fót stuðningsneti í formi vinnustofa og námskeiða sér hannað fyrir innflytjenda.

 

Kvenréttindafélag Íslands

Heiti verkefni: DIALOGUE -Samræður – Nýjar leiðir til að virkja samræðutækni til að ná til jaðarhópa
Tegund verkefnis og ár: Grundtvig samstarfsverkefni, 2010
Samstarfslönd: Þýskaland, Austurríki, Tékkland,Grikkland, Spánn, Finnland, Malta, Rúmenía, Tyrkland, Bretland

Verkefnið fjallaði um kynningu og samþættingu á samræðutækni innan starfs Kvenréttindafélags Íslands. Dialogue tæknin var kynnt stjórnarmeðlimum KRFÍ og fjallað var um hvernig stjórnarmeðlimir gætu nýtt sér þessa tækni í daglegu starfi. Unnið var að því að greina markvissa samskiptatækni eftir markhópum og þá sérstaklega jaðarhópum í samfélaginu með það að markmiði að styrkja einstaklinga og hópa sem minna mega sín í samfélaginu. Verkfærin eru: félagsleg samþætting, menningarleg nálgun og virk borgaraleg þátttaka þeirra sem tóku þátt í verkefninu. Fjölmenningarleg nálgun í samskiptum er lykilatriði í samræðum milli hópa og voru þátttakendur þjálfaðir í henni. Verkefnið sá um framleiðslu á kvikmynd til almennrar dreifingar með niðurstöðum verkefnisins og átti Marsibil Sæmundardóttir heiðurinn að henni. Myndin kemur á framfæri mikilvægi samræðulistar til sjálfstyrkingar einstaklinga og hvernig þjálfa megi skapandi samræðutækni á meðal jaðarhópa. Námsumhverfið getur verið mismunandi en námsaðferðirnar er hægt að aðlaga margvíslegum aðstæðum. Verkefnisniðurstöður munu nýtast áfram í starfi Kvenréttindafélagsins og verða vegvísir í samskiptum þeirra við mismunandi hópa samfélagsins.

 

 

Erasmus: Háskólar

 

Listaháskóli Íslands

Heiti verkefnis: Erasmus stúdenta og starfsmannaskipti
Tegund verkefnis og ár: Stúdenta- og starfsmannaskipti 2007-2012
Samstarfslönd: Flest ESB lönd

Listaháskóli Íslands hefur verið mjög virkur þátttakandi í Erasmus allt frá því að Ísland hóf þátttöku í áætluninni árið 1992 (þá Myndlista- og handíðaskóli Íslands). Miðað við stærð háskólans hefur þátttaka LHÍ verið margföld á við aðra háskóla. Árið 2012 var gerð úttekt á framkvæmd Erasmus hjá íslenskum háskólum og niðurstaðan var áberandi best hjá LHÍ þar sem framkvæmdin er til fyrirmyndar. Kynning á Erasmus stúdenta- og starfsmannaskiptum, miðlun reynslu þeirra sem hafa farið utan, móttaka þeirra sem koma til LHÍ og almenn umsýsla hefur verið mjög góð. Kennarar og starfsmenn sem fara á vegum Erasmus miðla reynslu sinni á deildar- eða stoðsviðsfundum. Sem dæmi um öflugt kynningarstarf fyrir stúdenta þá hefur myndlistardeild tekið reynslusögur Erasmus stúdenta inn í samræðutíma sem ná til allra nemenda deildarinnar. LHÍ hefur markvist kynnt möguleikann á Erasmus starfsnámi og hvatt nemendur sína til að nýta þann möguleika. Í öllum deildum LHÍ er lögð mikil áhersla á alþjóðlegt samstarf og í Leiklistar- og dansdeild eru tvær námsbrautir þar sem skiptinám eða starfsnám erlendis er skylda. Erasmus áætlunin er notuð á markvissan hátt í þessu öfluga alþjóðasamstarfi.

 

Háskólasetur Vestfjarða

Heiti verkefnis: Íslenskunámskeið fyrir Erasmus stúdenta
Tegund verkefnis: Tungumálanámskeið 2008-2012

Þriggja vikna íslenskunámskeið í ágúst fyrir Erasmus skiptistúdenta sem eru að koma til náms við íslenska háskóla. Markmið námsins er að stúdentar geti að því loknu tjáð sig og skilið einföld skilaboð á íslensku. Háskólasetur Vestfjarða hefur frá árinu 2008 séð um þetta námskeið. Stúdentar búa á Núpi við Dýrafjörð í gamla héraðsskólanum. Hefðbundin kennsla fer fram fyrir hádegi á Núpi en eftir hádegi eru fjölbreytt og metnaðarfull valnámskeið sem einnig eru haldinn á Ísafirði og hafa meðal annars falið í sér lausnarleitarnám þar sem íbúar Ísafjarðar taka þátt, t.d. kórsöng, sögu, náttúru og menningu Vestfjarða, leiklist, dans, ljóð, bakstur og fleira. Dvölin að Núpi og á Ísafirði hefur verið mikil upplifun fyrir stúdentana og veitt þeim innsýn inn í Íslenskt samfélag sem fæstir hefðu annars notið. Sterk tengsl myndast innan hópsins á heimavistinni og margir stúdentar tilgreint að þau hafi verið ómetanleg. Öll árin hefur námsmat farið fram með sama hætti og framkvæmt af utanaðkomandi aðila. Árið 2008 var niðurstaðan mjög góð en hefur síðan orðið betri með hverju ári. Háskólasetur Vestfjarða hefur lagt mikinn metnað í að bjóða upp á faglegt nám og lagt alúð í að taka vel á móti stúdentum á námskeiðunum

 

 

Evrópa unga fólksins: Æskulýðsstarf

 

Stelpur rokka!

Heiti verkefnis: Rokksumarbúðir fyrir ungar stelpur í Reykjavík sumarið 2012
Tegund verkefnis: Frumkvæði ungs fólks
Samstarfslönd: Innanlandsverkefni

Fjögur ungmenni á aldrinum 18-30 ára höfðu frumkvæði af því að skipuleggja rokksumarbúðir fyrir ungar stelpur á aldrinum 12-16. Þetta tónlistarverkefni miðaði að því að efla og styrkja ungar stelpur með því að láta hæfileika þeirra og rödd heyrast í íslenskri tónlistarsenu. Meginmarkmið rokksumarbúðanna var að veita ungum stúlkum leiðsögn við hljóðfæraleik, lagasmíð, hljómsveitarspil og sviðsframkomu. Langtímamarkmið þessa hóps er að rétta hlut kvenna í tónlistarbransanum.

 

Radioactive Pants

Heiti verkefnis: Free running heimildarmynd
Tegund verkefnis: Frumkvæði ungs fólks
Samstarfslönd: Innanlandsverkefni

Nokkrum ungum strákum langaði til að kynna free running íþróttina fyrir fleiri ungmennum á Íslandi. Þeir fengu því styrk til að gera heimildarmynd um þessa jaðaríþrótt í þeim tilgangi að ná meiri útbreiðslu á íþróttinni á Íslandi.Free running íþróttin eflir sjálfstæði einstaklingsins, hægt er að stunda hana í hóp þrátt fyrir að einstaklingar séu komnir mislangt í íþróttinni og hún stuðlar að samveru yngri og eldri þátttakenda af báðum kynjum. Þátttakendur æfa stökk innandyra og þegar þeir eru orðnir öruggir þá færa þeir sig út og nýta sér hluti þar til að framkvæma stökkin.

 

Einelti er ekkert grín!

Heiti verkefnis: Einelti er ekkert grín, fræðslumyndband og umræðuspurningar
Tegund verkefnis: Frumkvæði ungs fólks
Samstarfslönd: Innanlandsverkefni

Tólf ungmenni á aldrinum 15-18 höfðu áhyggjur af því hversu mikið einelti er í skólum landsins. Þau langaði til að bregðast við þessu og gera eitthvað í málunum. Þau sóttu því um styrk til að útbúa nokkrar stuttmyndir um einelti og afleiðingar þess á þann sem lagður er í einelti. Þessi hópur kemur úr ungmennaráði Miðborgar og hlíða.

 

Ungmennaráð Seltjarnarness

Heiti verkefnis: Af hverju ungmennaráð
Tegund verkefnis: Ungmennaskipti
Samstarfslönd: Ísland og Svíþjóð

Þrjátíu ungmenni frá Íslandi og Svíþjóð á aldrinum 15-25 hittust á Íslandi eina viku í ágúst 2013 til að ræða um starfsemi ungmennaráða. Þátttakendur voru frá ungmennaráði Seltjarnarness og ungmennaráði Lundar í Svíþjóð. Áhersla var lögð á að útbúa kynningarmyndband um starfsemi ungmennaráða og hvetja samtök og sveitarfélög til að þróa ungmennaráð sem geta leitt til aukinnar þátttöku ungmenna í samfélaginu.

 

Foreldrafélag Skólahljómsveitar Grafarvogs

Heiti verkefnis: Una paloma blanca – Hvíta dúfan
Tegund verkefnis: Ungmennaskipti
Samstarfslönd: Ísland og Spánn

Um 30 krakkar á aldrinum 13-18 úr Skólahljómsveit Grafarvogs fóru til Spánar og hittu jafnmarga spænska krakka sem spila í hljómsveit. Þessir krakkar ræddu saman um tónlistarhefð landanna og æfðu saman nokkur lög. Verkefnið byggði á því að tengja saman ólíka tónlistarheima þar sem ungmennin komu frá ólíkum menningar- og tónlistarsvæðum en unnu í sameiningu að verkefnum sem tengja þessa ólíku heima.

 

LungA – Listahátíð ungs fólks, Austurlandi

Heiti verkefnis: Listir & lýðræði
Tegund verkefnis: Ungmennaskipti
Samstarfslönd: Ísland, Danmörk og Finnland

60 ungmenni frá Íslandi, Finnlandi og Danmörku hittust á Seyðisfirði í júlí 2012 í tengslum við LungA. LungA skiplagði verkefni með þessum krökkum og var aðal þema verkefnisins að skoða starf listamannsins út frá lýðræðishugtakinu. Þátttakendur verkefnisins tóku einnig þátt í vinnusmiðjum á listahátíð unga fólksins á Austurlandi, LungA.

 

AUS – Alþjóðleg ungmennaskipti

Tegund verkefnis: Evrópsk sjálfboðaþjónusta – EVS
Samstarfslönd: Ýmis lönd í Evrópu

AUS hefur tekið á móti evrópskum ungmennum á aldrinum 18-30 og sent íslensk ungmenni til Evrópu til þess að taka þátt í sjálfboðaverkefnum. Íslensk ungmenni geta því fengið styrk til að fara sem sjálfboðaliði í minnst 2 mánuði og mest 12 mánuði. Um er að ræða verkefni af ýmsu tagi eins og t.d. þátttöku í æskulýðsstarfi, samfélagsverkefni eins og t.d. vinna með börnum, fötluðum eða öldruðum, umhverfistengd verkefni, dýravernd o.fl. AUS hefur einnig lagt áherslu á að senda fatlaða einstaklinga í sjálfboðaverkefni til Evrópu eða einstaklinga sem hafa minni tækifæri en jafnaldrar þeirra til að kynnast öðrum menningarheimum og til að auka starfsgetu þeirra.

 

SEEDS – Volunteering for Iceland

Tegund verkefnis: Evrópsk sjálfboðaþjónusta – EVS
Samstarfslönd: Ýmis lönd í Evrópu

SEEDS hefur tekið á móti evrópskum ungmennum á aldrinum 18-30. Evrópsk ungmenni geta því fengið styrk til að koma til Íslands til að taka þátt í sjálfboðastarfi í minnst 2 mánuði og mest 12 mánuði. Verkefni sem eru í boði hjá SEEDS eru t.d. að taka þátt í umhverfistengdu starfi hjá farfuglaheimilum og öðrum umhverfistengdum verkefnum eins og gerð göngustíga, hreinsa strandlengjuna, gróðursetning trjáa o.fl. SEEDS býður einnig upp á menningartengd verkefni eins og þátttöku í ýmis konar listviðburðum.

 

Sólheimar

Tegund verkefnis: Evrópsk sjálfboðaþjónusta – EVS
Samstarfslönd: Ýmis lönd í Evrópu

Sólheimar hafa tekið á móti evrópskum ungmennum á aldrinum 18-30 til að taka þátt í samfélagsverkefnum á Sólheimum. Markmið verkefnisins er að bjóða ungmennum að búa á Sólheimum og taka þátt í fjölbreyttu starfi þar í 6-12 mánuði. Verkefnin sem unga fólkið getur tekið þátt í eru t.d. þátttaka í vinnustofum eins og listasmiðju, vefstofu, leirgerð, kertagerð og smíðastofu. Umhverfistengd verkefni tengjast t.d. skógræktar- og gróðrarstöðinni og umhverfissetrinu. Einnig er í boði að fá reynslu við að vinna í bakaríi, verslun og kaffihúsi.

 

 

ESPON: Byggðamál

 

SeGI

Heiti verkefnis: Heiti verkefnisins: Services of General Interest
Tegund verkefnis: ESPON
Samstarfslönd: Svíþjóð, Austurríki, Bretland, Pólland, Ísland, Noregur, Ungverjaland, Rúmenía, Spánn, Þýskaland

Í verkefninu var unnið að þróun og vali 20 vísa (indicators) til að nota við skipulagsvinnu í ríkjum Evrópu. Verkefnið var unnið í nánum tengslum við hagsmunaaðila í fimm löndum sem aðild áttu að rannsókninni, en það voru Baskaland, Írland, Ísland, Lettland og Skotland. Írar í byggðarannsóknastöðinni (National Institute for Regional and Spatial Analysis) í Maynooth fóru með verkefnisstjórn en Graeme Purvis hjá skosku ríkisstjórninni fór fyrir hagsmunaaðilum. Fyrir hönd hagsmunaaðila á Íslandi fór Skipulagsstofnun og Rannsókna- og þróunarmiðstöð háskólans á Akureyri sá um rannsóknaþáttinn.

 

KITCASP

Heiti verkefnis: Key Indicators for Evidence-based Spatial Planning
Tegund verkefnis: ESPON
Samstarfslönd: Baskaland, Írland, Ísland, Lettland og Skotland

Verkerfnið var unnið í samvinnu 11 landa undir stjórn Kungliga Tekniska Högskolan (KTH) í Stokkhólmi. Íslenski þátttakandinn í verkefninu var Rannsókna- og þróunarmiðstöð háskólans á Akureyri. Markmiðið var að rannsaka tengsl milli Services of General interest, sem er hugtak ættað úr stjórnsýslu ESB en þýða mætti sem almannaþjónustu, og þróunar byggðar í löndum Evrópu. Þannig voru m.a. gerðar níu tilviksrannsóknir (case studies) í jafn mörgum löndum og kortlagðir vísar eða indicators sem ætlað var að lýsa stöðu almannaþjónustu í löndum Evrópu. Meðal efnis sem gefið var út er kortabók eða Atlas með þemakortum yfir ýmsa vísa á þessu sviði.

 

 

Northern Periphery Programme: Norðurslóðir

 

Snow Magic

Heiti verkefnis: Snætöfrar
Samstarfslönd: Ísland, Svíþjóð og Finnland

Markmið verkefnisins var að þróa vörur, þjónustu og viðburði er varðar ferðaþjónustu á vetrum, í tengslum við menningu og sérstöðu einstakra svæða.

 

Craft International

Heiti verkefnis: Hagleikssmiðjur
Samstarfslönd: Ísland, Færeyjar, Norður-Írland, Svíþjóð og Írland

Markmið er að varðveita hefðbundið handverk, mæta þörfum samtímans fyrir menningar- fræðslu og ferðaþjónustu afurðir. Hagleiksmiðjan selur handverk, segir sögu þess og lýsir menningunni sem handverkið er sprottið úr og upplifuninni sem fylgir því að sjá vöruna verða til.

 

 

Almannavarnaáætlun ESB: Almannavarnir

 

Slysavarnarfélagið Landsbjörg

Titill: Urban Search and Rescue (USAR)
Heiti verkefnis: Alþjóðabjörgunarstarf
Samstarfslönd: Öll lönd Evróputaka þátt

Á hverju ári í heiminum skella á heimsbyggðinni stórfelldar náttúruhamfarir og hörmungar sem krefjast alþjóðlegrar samvinnu þar sem viðkomandi yfirvöld eru þess ekki megn að takast á við slíkar aðstæður. Almannavarnakerfi ESB er mikilvægur hlekkur í alþjóðlegri samvinnu á hamfaratímum. Samhæfingarmiðstöð ESB og samhæfingarteymi á vegum sambandsins veita mikilvæga neyðaraðstoð í upphafi neyðaraðgerða um allan heim. Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin er skráð sem viðbragðsaðili í almannavarnakerfi ESB þegar kemur að alþjóðlegu viðbragði við náttúruhamförum og tekur virkan þátt í samskiptum, samvinnu og þjálfun alþjóðlegra viðbragðsaðila í Evrópu vegna náttúruhamfara. Vegna samstarfsins í almannavarnakerfi ESB lagði sambandið fram fjármuni vegna útkalls sveitarinnar til Haiti 2010, en jafnframt er lögð mikil áherslu á æfingar og þjálfun viðbragðsaðila á vegum sambandsins til að tryggja sem best árangur af starfi þeirra þegar til kastanna kemur, enda fara aðgerðir á hamfarasvæðum fram í afar krefjandi aðstæðum, á erlendum tungumálum og iðulega í framandi menningarheimi sem eykur álag á samskipti og eru oft á tíðum mikil áskorun fyrir viðbragðsaðila. Stjórnendur og millistjórnendur sveitarinnar hafa þannig sótt grunnnámskeið á vegum samstarfsins ásamt sértækra námskeiða sem snúa að ákveðnum einingum. Sveitin tók þátt í rústabjörgunaræfingu (MODEX 2013) á vegum ESB í janúar síðastliðnum og mun taka þátt í MODEX 2014 í júní næstkomandi. Allur útlagður kostnaður vegna námskeiða og æfinga er greiddur af Evrópusambandinu. Þá snýst samstarfið einnig um að mynda tengslanet til að auðvelda mönnum að vinna saman þegar kemur að náttúruhamförum og að menn þekki til vinnu hvors annars.

 

 

EURES: Atvinna

 

EURES – Evrópsk vinnumiðlun

Samstarfslönd: Öll ríki á Evrópska efnahagssvæðinu

EURES (European Employment Services) er samstarf um vinnumiðlun milli ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu (EES). EES-löndin má sjá hér. Átta hundruð Euresráðgjafar mynda samskiptanet í öllum ríkjum EES. EURES netið er á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins en með EES-samningnum hafa Íslendingar aðgang að þessum stóra vinnumarkaði. Markmiðið er að auðvelda vinnandi fólki að flytjast milli EES-landa. Euresráðgjafar miðla upplýsingum um atvinnutækifæri og atvinnuleitendur svo hægt sé að leysa staðbundna manneklu og atvinnuleysi á ýmsum sviðum með flutningum milli svæða. Meginþættir EURES eru að: Leiðbeina fólki í atvinnuleit erlendis, Veita upplýsingar um búsetu- og starfsskilyrði, Aðstoða vinnuveitendur sem hafa áhuga á að ráða til sín fólk frá öðrum EES-löndum.

 

 

Heilbrigðisáætlun ESB: Heilsa

 

JAMHWB

Heiti verkefnis: Joint Action on Mental Health and Well-being
Samstarfslönd: Austurríki, Belgía, Búlgaría, Króatía, Kýpur, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Þýskaland, Ungverjaland, Ísland, Írland, Ítalía, Lettland, Litháen, Lúxemborg, Malta, Holland, Noregur, Portúgal, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð og Bretland.

Evrópuverkefni um geðheilsu og vellíllðan (Joint Action on Mental Health and Well-being) er styrkt af Heilbrigðisáætlun Evrópusambandsins (ESB) og er hugsað til þriggja ára (2013-2016). Megin markmið verkefnisins er að setja fram ramma utan um stefnur í geðheilbrigðismálum í Evrópu. Verkefnið byggir á fyrri vinnu undir European Pact for Mental Health and Well-being. Stefnt er að því að koma á fót skipulagðri samvinnu aðildaríkja ESB og EFTA, hagsmunaaðila og alþjóðastofnana sem miðar að því að samhæfa aðgerðir. Samstarfsaðilar eru 50, þar af 27 aðildaríki ESB og 12 evrópskar stofnanir, sem vinna að geðheilbrigðismálum í skólum og á vinnustöðum, forvörnum gegn þunglyndi og sjálfsvígum, geðheilbrigðisþjónustu á vefnum, að samþættingu geðheilbrigðisþjónustu í nærsamfélagi og að því að koma geðheilsu í alla stefnumörkun (mental health in all policies).

Rannsóknir
Anchor 31
Anchor 32
Anchor 33
Anchor 34
Anchor 35
Anchor 36
Anchor 37
Anchor 38
Anchor 39
Anchor 40
Anchor 41
Anchor 42
Anchor 43
Anchor 44
bottom of page